Greinar

Við erum á réttri leið

Fjárhagsaðstoð á kjörtímabilinu 2014- 2018 hefur lækkað umtalsvert hjá Reykjanesbæ eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, bæði þegar við skoðum fjölda einstaklinga og fjármagn.

Heildarupphæð fjárhagsaðstoðar hvert ár

Á árinu 2014 þáðu 450 einstaklingar fjárhagsaðstoð  og heildarupphæð fjárhagsaðstoðar var kr 265.418.717 en það sem liðið er af árinu 2018 hafa 102 einstaklingar þegið fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu og upphæðin er komin upp í 31.983.720.

Breytt verklag

Við upphaf kjörtímabilsins var tekin sú ákvörðun af meirihlutanum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að breyta verklagi í veitingu fjárhagsaðstoðar. Einstaklingum var boðið upp á virkniúrræði hjá Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum og félagsráðgjafar fóru að vinna þéttar með þjónustuþegunum. Flestir þeirra sem fóru í virkniúrræðin voru þakklátir fyrir tækifærið sem þau fengu.

Lausnir fundnar – virkniúrræði í boði

Með þessari vinnu var hægt að finna lausnir fyrir þiggjendur fjárhagsaðstoðar. Sumir glímdu við heilsubrest og þurftu aðstoðar innan heilbrigðiskerfisins og enn aðrir fóru út á vinnumarkað eða í nám eftir að hafa stundað virkniúrræði hjá MSS.

Það eru líka aðrir þættir sem hjálpuðu til við þessar jákvæðu breytingar hjá bæjarfélaginu sem snýr að þessum málaflokki. Atvinnuástand hefur batnað til muna á kjörtímabilinu og allir vinnufærir einstaklingar geta fundið sér vinnu við sitt hæfi.

Þeir sem sitja eftir á fjárhagsaðstoð eru þeir einstaklingar sem treysta sér ekki til vinnu eða í nám af einhverjum ástæðum. Starfsmenn velferðarsviðs Reykjanesbæjar hafa sinnt þessum einstaklingum eftir bestu getu og kunnum við þeim okkar allra bestu þakkir fyrir.

Það er von mín að þessi vinna muni halda áfram hjá Velferðarsviði Reykjanesbæjar í framtíðinni.  Þessar breytingar eru hagur allra bæjarbúa.
Reykjanesbær – Samfélag í sókn.

Elfa Hrund Guttormsdóttir
félagsráðgjafi, skipar 9 sæti á S-lista Samfylkingar og óháðra í Reykjanesbæ