Fréttir

Suðurnesjamönnum bjóðist sambærileg þjónusta

Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar var sérstakur gestur á vel sóttum aðalfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ þann 23. september þar sem hann ræddi stöðuna í landsmálunum, þingstörfin framundan og áherslur þingflokks Jafnaðarmanna.

Logi benti sérstaklega á að í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur væri ekki tekið tillit til mikillar fólksfjölgunar á síðustu árum á Suðurnesjum og sanngjarnra óska um auknar fjárveitingar til að bregðast við því heldur væri jafnvel um að ræða í einhverjum tilfellum raunlækkun á fjárframlögum til opinberra stofnana á Suðurnesjum.

Í framhaldinu samþykktu fundarmenn eftirfarandi ályktun:

„Aðalfundur Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ skorar á ríkistjórnina að skipa sem fyrst í starfshóp sem vinna á tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar en þingsályktun þess efnis, sem Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar var fyrsti flutningsmaður að, var samþykkt á Alþingi 19. júní 2019.

Mjög mikilvægt er að tryggja að fjárframlög til ríkisstofnanna t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum og að fjárframlög til annarra mikilvægra verkefna á Suðurnesjum fylgi þróun mannfjölda á svæðinu svo Suðurnesjamönnum bjóðist sambærileg opinber þjónusta og öðrum landsmönnum býðst.“

Á aðalfundinum voru kosin í stjórn félagsins þau Eysteinn Eyjólfsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Vilhjálmur Á. Skarphéðinsson, Sigurrós Antonsdóttir og Jóhanna Sigurbjörnsdóttir og varamenn voru kosin Guðrún Ösp Theodórsdóttir og Hjőrtur M Guðbjartsson. Stjórnin skiptir svo með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Í stjórn Kvennafylkingarinnar voru kosnar þær Jóhanna Sigurbjörnsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir, Íris Ósk Ólafsdóttir og Jana Guðlaugsdóttir og til vara Jurgit Milleriene og Guðrún Ösp Theodórsdóttir.