Samþykktir Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

1. gr.

Nafn félagsins er Samfylkingin í Reykjanesbæ; félag jafnaðar, félagshyggju og kvenfrelsis. Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að vera vettvangur jafnaðar- og félagshyggjufólks til umræðna og ályktana um þjóðmál og bæjarmál í Reykjanesbæ.

3. gr.

Meginmarkmið félagsins eru:
að hefja til vegs sjónarmið jafnaðar, félagshyggju og kvenfrelsis.
að standa fyrir virkri umræðu um þjóðmál og málefni bæjarfélagsins.
að standa fyrir framboði Samfylkingar til Alþingis og bæjarstjórnar.

4. gr.

Rétt til aðildar eiga íbúar Reykjanesbæjar og nágrennis sem samþykkja stefnu félagsins og náð hafa 16 ára aldri.

5. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 5 fulltrúum og tveimur til vara. Skal hún kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum og velur úr sínum hópi formann, varaformann, gjaldkera, ritara og tvo meðstjórnendur. Gjaldkeri skal jafnan vera formaður fjáröflunarnefndar félagsins. Stjórnarfundir teljast löglegir ef þeir eru boðaðir með minnst sólarhrings fyrirvara og meirihluti stjórnar er viðstaddur. Varamenn skal jafnan boða á stjórnarfundi og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna. Varastjórn hefur málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum en er eigi heimilt að greiða atkvæði um þau mál sem til afgreiðslu eru.

6. gr.

Stjórnin boðar til félagsfunda og skulu þeir boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef minnst 30 félagsmenn senda um það skriflegt erindi til stjórnar og tilgreina erindið.

7. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. mars ár hvert og skal hann boðaður með viku fyrirvara. Fastir liðir aðalfundar skulu vera:

  • Skýrsla stjórnar.
  • Lagðir fram reikningar félagsins.
  • Skýrslur nefnda, sem starfa á vegum félagsins.
  • Kosning stjórnar, fimm aðalmanna og tveggja til vara.
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  • Kosning í nefndir.
  • Breytingar á samþykktum.
  • Önnur mál.

8. gr.

Á aðalfundi eða almennum fundi skal kjósa fulltrúa félagsins á landsfund og í kjördæmisráð Samfylkingarinnar auk fulltrúa í fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Þá skal kjósa nefndir á vegum félagsins.

9. gr.

Bæjarmálaráð félagsins er skipað stjórn félagsins, bæjarfulltrúum og jafnmörgum varamönnum þeirra. Oddviti bæjarfulltrúa stjórnar fundum bæjarmálaráðs.

10. gr.

Á vegum félagsins skulu að öðru jöfnu haldnir reglulega bæjarmálafundir fyrir bæjarstjórnarfundi. Þeir skulu vera opnir öllum bæjarbúum. Umsjón með þeim fundum er í höndum bæjarmálaráðs.

11. gr.

Félaginu verður einungis slitið ef tillaga þess efnis berst stjórn og skal hún þá kynnt félagsmönnum fyrir næsta aðalfund þess. Til þess að slíta félaginu þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á tveimur fundum og skal sá fyrri þeirra vera aðalfundur. Eigu skal líða skemmri tími en 6 vikur milli funda og eigi lengri en 3 mánuðir.

12. gr.

Samþykkum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi enda sé rétt til hans boðað. Tillögum að breytingum skal getið í aðalfundarboði.

13. gr.

Ákvæði til bráðabirgða:

Heimilt verður að breyta samþykktum þessum á félagsfundi verði það nauðsynlegt til að samræma þær samþykktum fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Samþykkt á aðalfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ 3. apríl 2008